Erlent

Mænusótt veldur áhyggjum í Kabúl

Samúel Karl Ólason skrifar
Ungur drengur er bólusettur gegn mænusótt í Pakistan.
Ungur drengur er bólusettur gegn mænusótt í Pakistan. Vísir/AFP Nordic
Afgönsk þriggja ára stúlka hefur greinst með mænusótt í Kabúl. Það er í fyrsta síðan frá falli Talíbana árið 2001 sem mænusótt finnst í höfuðborginni. Heilbrigðisráðneyti landsins hefur fyrirskipað bólusetningarátak í borginni. Sóttin greindist eftir að stelpan lamaðist.

Sagt er frá þessu á vef BBC.

Þrátt fyrir að veikinni hafi verið útrýmt í stærstum hluta heimsins, finnst mænusótt enn í Afganistan, Pakistan og norður Nígeríu. Í þessum löndum hafa íslamskir öfgamenn staðið í vegi bólusetningar og þannig komið í veg fyrir útrýmingu veikinnar.

Eftir að Talíbanar breyttu stefnu sinni fyrir nokkrum árum byrjuðu að leyfa bólusetningar hefur mænusóttartilfellum fækkað hratt. Árið 2011 voru 80 tilfelli, þau voru 37 árið 2012 og 14 á síðasta ári. Talíbanar í Pakistan leyfa aftur á móti ekki bólusetningar og dreifa þeim sögusögnum að tilgangur bólusetningarinnar sé að gelda íbúa landsins.

Þá hefur þetta nýjasta tilfelli valdið áhyggjum og heilbrigðisstarfsmenn hafa reynt að heimsækja öll heimili í hverfinu sem stúlkan býr í. Íbúar hverfisins eru mjög fátækir. Þar er ekkert rennandi vatn, né rafmagn og margir hverjir búa í tjöldum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×