Erlent

Snowden sagður hafa notað einfalda tækni til að afrita leyniskjölin

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Uppljóstranir Snowdens vöktu hörð viðbrögð.
Uppljóstranir Snowdens vöktu hörð viðbrögð. Nordicphotos/AFP
Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden notaði sáraeinfalda tækni þegar hann afritaði þúsundir leyniskjala frá Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA). 

Þetta hefur bandaríska dagblaðið The New York Times eftir starfsmönnum leyniþjónustunnar, sem hafa gert rannsókn á því hvernig Snowden komst yfir þær upplýsingar sem hann lak svo til fjölmiðla.

Sjálfur segir Snowden að þarna sé enn verið að afvegaleiða almenning um það, sem hann gerði:  „Það er kaldhæðnislegt að embættismenn séu að láta blaðamenn fá leynilegar upplýsingar í tilraun til að gera mig tortryggilegan fyrir það að ég lét blaðamenn fá leynilegar upplýsingar. Munurinn er sá að ég gerði það til þess að upplýsa almenning um athafnir stjórnvalda, en þeir eru að gera það til þess að afvegaleiða almenning um mínar athafnir,” er haft eftir Snowden í The New York Times, fyrir milligöngu lögmanns hans.

Snowden er sagður hafa notað sjálfvirkt leitarforrit, vefskriðil, sem bæði er ódýrt og auðvelt að útvega sér, til þess að leita uppi og afrita gögnin þegar hann starfaði sem verktaki hjá NSA.

Þessar fullyrðingar vekja enn upp spurningar um það hvernig óbreyttum verktaka tókst að útvega sér viðkvæmar upplýsingar frá voldugustu njósnastofnun veraldar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×