Erlent

Ekki leyfilegt að bjóða aðeins karlkyns gestum í spjallþætti á BBC

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þátturinn Mock the Week nýtur gríðarlegrar vinsælda á BBC.
Þátturinn Mock the Week nýtur gríðarlegrar vinsælda á BBC.
Breska ríkisútvarpið BBC hefur nú tekið upp nýja stefnu en í framtíðinni verður ekki leyfilegt að vera aðeins með karlkyns gesti í spjallþáttum á borð við QI og Mock the Week.

„Við höfum ákveðið að taka upp nýja reglu þess efnis að þáttastjórnendum er ekki leyfilegt að bjóð aðeins karlmannsgestum í sína þætti,“ segir Danny Cohen, sjónvarpsstjóri BBC, í viðtali við Observer.

„Það er einfaldlega ekki boðlegt að sýna þætti þar sem viðmælendur eru aðeins karlkyns.“

Cohen talar einnig um að það sé nauðsynlegt að fá fleiri kvenmenn í eldri kantinum á skjáinn.

„Ástandið er að skána hjá stofnuninni en við getum gert betur.“

Skemmtiþættirnir QI, Mock the Week og Have I Got News for You hafa verið mikið gagnrýndir fyrir það að bjóða aðeins karlmönnum í þættina.

Í þættinum Mock the Week voru aðeins fimm kvenkyns gestir af síðustu 38.

Samkvæmt talsmanni BBC hafa nokkrir þættir nú þegar verið teknir upp þar sem aðeins karlkyns gestir koma við sögu en í framtíðinni verður ávallt að minnsta kosti einn kvenkyns gestur í þáttum breska ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×