Innlent

Framhaldsskólanemar uggandi um sinn hag

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Verkfallsboðun framhaldsskólakennara var samþykkt í dag. Til stendur að verkfallið hefjist sautjánda mars, náist samningar ekki fyrir þann tíma. Framhaldsskólanemar eru uggandi um sinn hag.

„Það væri alveg ömurlegt að missa svona mikið úr skólanum. Ef það verður af verkfallinu verður skólinn líka líklega fram í júní og það setur stórt strik í reikniginn þegar maður ætlar sér að nota sumarið í að vinna svo ég geti borgað skólagjöld og annað,“ segir Soffía Birgitta Birgisdóttir, nemandi á öðru ári í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.

Álfdís Helga Þórsdóttir skólasystir hennar tekur í sama streng.

„Ég er í verklegu námi og maður þarf á kennurum að halda í verklegum áföngum. Ég er að gera lokaverkefni og get ekki gert það upp á eigin spýtur svo það myndi koma sér mjög illa fyrir mig ef það kæmi verkfall. Ég vil líka geta útskrifast á réttum tíma“ segir hún.

Mikill meirihluti samþykkti að fara í verkfall eða 87,6%. 10% voru andvígir. Kjaraviðræður kennara við ríkið hafa staðið yfir síðan í desember.  Enn ber mikið á milli samninganefndar framhaldsskólakennara og ríkisins en ríkið býðst til að mæta 17% launahækkunarkröfu kennara með 2,8% hækkun. Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður félags framhaldsskólakennara segist hvorki vera svartsýn né bjartsýn á að samningar náist í tæka tíð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×