Erlent

Steve Jobs-stytta vekur misjöfn viðbrögð

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Stytta af Steve Jobs, stofnanda Apple, var afhjúpuð í vikunni og hefur sérkennilegt útlit hennar vakið athygli. Jobs lést árið 2011 en hann var einn helsti talsmaður fyrirtækisins og andlit þess út á við.

Afhjúpun styttunnar fór fram í Belgrad en það er serbneski myndhöggvarinn Dragan Radenovic sem stendur á bak við verkið. Jobs hefði orðið 59 ára í vikunni.

Skiptar skoðanir eru á styttu Radenovics.mynd/youtube
Styttan sýnir höfuð Jobs á háum stöpli og standa kýrillískir stafir út úr stöplinum, auk tölustafanna 0 og 1, en þeir tákna tvíundatölur.

Hönnun Radenovics var valin úr meira en tíu þúsund verkum í alþjóðlegri keppni en margir hafa lýst frati á verkið, eins og kemur fram í frétt Business Insider, og kallar miðillinn styttuna hræðilega ljóta. Þá spurði vefsíðan Gizmodo lesendur sína hvað þeim fyndist um verkið og var fátt um jákvæð svör.

Engu að síður eru forsvarsmenn Apple ánægðir og stendur til að reisa styttuna í stækkaðri mynd fyrir framan höfuðstöðvar fyrirtækisins í Kaliforníu þegar búið er að ganga frá formsatriðum. Verður hún þá á bilinu þriggja til fimm metra há.


Tengdar fréttir

Arfleifð Steve Jobs - Apple stærst allra

Rúmt ár er liðið frá því að Steve Jobs, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Apple, hélt á vit forfeðra sinna. Margir óttuðust að fráfall hans myndi boða endalok þess mikla uppgangstíma sem tæknirisinn hafði gengið í gegnum síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×