Erlent

Menntun mikilvægust fyrir bætt lífsskilyrði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skólastúlkur í Níger.
Skólastúlkur í Níger. VISIR/AFP
Á heimsvísu telja flestir að aukin menntun sé til þess falinn að breyta mestu til batnaðar í lífi fólks.

Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Heimsljóss, veftímariti um þróunarmál sem kom út í dag.

Þessi niðurstaða byggir á hálfri annarri milljón atkvæða sem bárust í My World könnunina sem staðið hefur yfir frá árinu 2012. Sameinuðu Þjóðirnar stóðu fyrir framkvæmd hennar ásamt Overseas Development Institute í Bretlandi.

Atkvæði bárust frá 193 löndum en tveir af hverjum þremur töldu að aukin menntun myndi helst leiða til bættra lífsskilyrða hjá viðkomandi og fjölskyldu hans.

Næst flestir töldu að heilsugæsla væri til þess fallin, því næst atvinnutækifæri og fjórða algengasta svarið var „heiðarleg og ábyrg stjórnvöld.“

Ákveðinn samhljóm má greina úr íslensku atkvæðunum 220 sem bárust í könnunina en Íslendingar telja einnig menntun vera mikilvægasta þáttinn í auknum lífskjörum. Jafnrétti kynjanna var íslensku þátttakendunum ofarlega í huga en það prýðir annað sæti listans.

Könnunin mun standa fram á næsta ár en niðurstöðurnar verða að endingu færðar framkvæmdastjóra Sameinuðu Þjóðanna til viðmiðunar fyrir ný þúsaldarmarkmið árið 2015. 



„Markmið þeirra sem skipuleggja könnunina er að fá tvö þúsund manns frá hverju landi til þátttöku og því er ljóst að Íslendingar þurfa að bregðast við og fjölga íslenskum atkvæðum,“ segir á vefsíðu Heimsljóss.

Nánari upplýsingar um þróunarmál má nálgast á síðu vefritsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×