Erlent

Reyndi að kúga fé út úr framleiðendum Transformers 4

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Michael Bay meiddist í átökunum en hélt áfram tökum.
Michael Bay meiddist í átökunum en hélt áfram tökum. vísir/afp
Karlmaður í Hong Kong hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir að reyna að kúga fé út úr framleiðendum og tökuliði kvikmyndarinnar Transformers 4.

Maðurinn, Mak Chi-shing, hlaut tveggja ára fangelsisdóm en bróðir hans fékk sex vikna dóm fyrir að ráðast á lögreglumann.

Mennirnir ráku verslun skammt frá tökustað myndarinnar í Hong Kong í október. Þeir neituðu að loka versluninni og kröfðust þeir þrettán þúsund dala (tæplega 1,5 milljóna króna) frá tökuliðinu.

Fyrir dómi kom fram að tökuliðið hafði áður boðið bræðrunum 130 dali (tæplega fimmtán þúsund krónur) fyrir ónæði af tökunum og vegna þess að götunni sem verslunin stóð við hafði verið lokað vegna þeirra.

Í kjölfarið brutust út átök milli mannanna og tökuliðsins og slasaðist leikstjóri myndarinnar, Michael Bay, í átökunum.

Dómarinn sagði atvikið hafa skaðað orðspor Hong Kong og lýsti áhyggjum sínum af því að það gæti haft áhrif á ferðaþjónustuna.

Transformers 4 verður frumsýnd í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×