Viðskipti innlent

Ræðst hvort embætti seðlabankastjóra verður auglýst í dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Koma mun fram í dag hvort embætti Seðlabankastjóra verði auglýst til umsóknar. Ljóst er þó að Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, vill halda áfram, en hálft ár er þar til fimm ára skipunartími hans rennur út.

Á árshátíð Seðlabankans fyrr í febrúar sagði Már: „Ég ætla að upplýsa það hér að ég er tilbúinn að hefja nýtt tímabil sé það í boði.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði í spjallþættinum Sunnudagsmorgun á RÚV um helgina að til stæði að breyta lögum um Seðlabankanna.

Í endurskoðaðri áætlun um framlagningu stjórnarfrumvarpa kemur fram að frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands skuli lagt fram eigi síðar en 31. mars næstkomandi.

Sigmundur Davíð sagði síðastliðinn sunnudag að frumvarpið væri í vinnslu, en að hann gerði ráð fyrir að fjöldi seðlabankastjóra væri meðal þess sem skoðað væri. Hann sagði ákveðin rök hníga að því að æskilegt væri að hafa fleiri en einn seðlabankastjóra, önnur að því að gott væri að hafa einn.

Hjá Seðlabankanum fengust þær upplýsingar að þar lægi ekki fyrir hvaða stefna yrði tekin með embætti seðlabankastjóra. Ekki náðist í Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra við vinnslu fréttarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×