Erlent

Sonur fékk spjaldtölvu látinnar móður - en ekki lykilorðið

Karl Ólafur skrifar
Tæknirisinn Apple reynist vandkvæðasamur í samningum.
Tæknirisinn Apple reynist vandkvæðasamur í samningum.
Bandarísk kona arfleiddi son sinn að spjaldtölvu sem lítil not hafa verið af þar sem lykilorðið fylgdi ekki með. Gizmodo greinir frá þessu.

Fyrir tveimur árum keypti móðir Josh Grant sér iPad eftir að hún greindist með krabbamein, og andaðist svo stuttu síðar. Í erfðaskrá sinni óskaði hún þess að eignum hennar væri skipt jafnt milli sona sinna fimm, og var ákveðið að sá elsti fengi spjaldtölvuna.

Í ljós kom að frú Grant hafði gleymt að skilja eftir lykilorð sitt fyrir Apple ID aðgang sinn, en aðgangur þessi er nauðsynlegur til þess að aflæsa tækinu. Spjaldtölvan er nú svo gott sem ónothæf, og Apple neitar að veita syninum hjálparhönd.

„Augljóslega gátum við ekki fengið skriflegt samþykki þar sem mamma var dáin. Nú hefur bróðir minn átt í langdregnum samskiptum við Apple, og nú vilja þeir fá einhverskonar sönnun til þess að hann geti fengið að nota spjaldtölvuna. Við höfum látið þá hafa dánarvottorð, erfðaskrá og bréf málflutningsmanns hennar, en það nægir þeim ekki. Nú biðja þeir um dómsúrskurð þess að mamma hafi raunverulega átt tölvuna og aðganginn,“ segir Josh.

Eftir að greint var frá málinu hefur fleira fólk greint frá sambærilegum aðstæðum þar sem því var aftrað frá því að nota vörur Apple sem það hafði eignast á löglegan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×