Innlent

Ummæli norska ráðherrans ósvífin

Jóhannes Stefánsson skrifar
Össur Skarphéðinsson segir fjölda spurninga vakna vegna þess hvernig makríldeilan hefur þróast á seinustu dögum.
Össur Skarphéðinsson segir fjölda spurninga vakna vegna þess hvernig makríldeilan hefur þróast á seinustu dögum. Vísir/Daníel/Svavar
Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra segir mörgu ósvarað vegna stöðunnar sem er komin upp vegna samkomulags strandríkjanna í makríldeilunni. Að hans mati eru ummæli norska sjávarútvegsráðherrans um að Ísland hafi komið í veg fyrir samkomulag í málinu ósvífin.

„Þetta eru einkar ósvífin ummæli af hálfu norska sjávarútvegsráðherrans. Það liggur alveg ljóst fyrir samkvæmt yfirlýsingu Damanaki sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins frá því í síðustu viku að það voru Norðmenn sem voru fyrirstaðan að því að hægt væri að ná heildarsamkomulagi allra aðila deilunnar. Það voru þeir, segir Damanaki, sem að höfnuðu þeirri tillögu sem þá var uppi á borðinu,“ segir Össur.

„Fyrir Norðmenn gengur ekki að reyna að skella skuldinni á Íslendinga. Svarti Péturinn var klárlega í þeirra höndum,“ bætir hann við.

Íslendingar teknir illilega í bólinu

„Það sem vekur undrun er hvernig í ósköpunum það gat gerst að vinaþjóð okkar Færeyingar sem virðast vera lykill að þessu samkomulagi gátu teflt þessa leiki án þess að Íslendingar vissu nokkuð af,“ segir Össur.

„Það er margt sem kallar eftir ítarlegum skýringum ríkisstjórnarinnar. Íslendingar virðast hafa verið teknir illilega í bólinu,“ segir Össur.

„Í þessari stöðu skiptir miklu máli að menn reyni að brjóta stöðuna til mergjar og nái að standa saman um ábyrga niðurstöðu af hálfu Íslands í málinu. Það skiptir máli jafnvel í þessari sérkennilegu stöðu að trúverðugleiki íslands sé óskertur og að áherslur Íslands og ekki síst sjávarútvegsráðherra um að ákvarðanir okkar byggist á sjálfbærni stofnsins,“ bætir Össur við.

Össur segir að Gunnar Bragi Sveinsson muni þurfa að skýra stöðu málsins eins og það blasi fyrir honum á fundi í utanríkismálanefnd síðar í dag. „Utanríkisráðherra þarf að skýra betur ummæli sín um loforð af hálfu ESB og sömuleiðis þarf hann að upplýsa hvað hann á með því að Norðmenn hafi leitið ljóta leiki í málinu," segir Össur Skarphéðinsson að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×