Viðskipti innlent

Vara við notkun náttúruperlna til arðs fárra einstaklinga

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Starfsgreinasamband Íslands varar við þeirri þróun að gjald sé tekið af einstaklingum sem vilja heimsækja og skoða náttúruperlur á Íslandi. Þá varar sambandið við þeirri þróun að náttúruperlur séu notaðar til arðs eingöngu fyrir fáa einstaklinga. Þetta kemur fram í tveimur ályktunum sem formannafundur SGS samþykkti síðastliðinn fimmtudag.

„Flestir hafa skilning á því að það þarf fjármuni til að halda stöðunum við og vernda náttúruna fyrir átroðningi. Slíkir fjármunir eiga hins vegar að koma úr sameiginlegum sjóðum enda á gjaldtaka að fara í gegnum sameiginlega sjóði líka, hvort sem það verður í formi náttúrupassa eða skatts á ferðaþjónustu,“ segir í tilkynningu frá Starfsgreinasambandinu.

Þá segir að ófært sé að einstaka aðilar innheimti gjald eftir eigin höfði á einstaka stöðum og lögmæti slíkrar innheimtu sé mjög á reiki.

Starfsgreinasamband Íslands lýsir yfir áhyggjum að þeim aðstöðumun sem fólk býr við eftir búsetu á mismunandi landsvæðum.

„Misjafnt aðgengi að grunnþjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu verður þess valdandi að launafólk þarf að nýta sumarfrí og veikindadaga til að sækja þjónustu um langan veg. Þetta kemur niður á frídögum fólks og skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja um landið. Þar að auki fylgir mismikill ferða- og dvalarkostnaður fyrir fólk sem þarf að nýta sér þjónustu fjarri heimabyggð og kemur fram sem hrein kjaraskerðing launafólks.“

Þetta misvægi er sagt hafa aukist enn eftir því sem þjónustan hafi dregist saman síðustu ár og ekki verði litið fram hjá miklum og vaxandi aðstöðumun lengur.

„Formannafundur Starfsgreinasambandsins hvetur eindregið til þess að ríki, byggðastofnun og aðilar vinnumarkaðarins taki höndum saman um að finna lausnir til að vinna gegn þessu misrétti.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×