Innlent

Aðalritarinn í ævintýraferð á hundasleða á Grænlandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, þeysir á hundasleða, siglir innan um borgarísjaka og veiðir í gegnum ísvakir í sögulegri heimsókn til Grænlands, sem ætlað er að beina sjónum að loftlagsvanda heims. Þetta er í fyrsta sinn sem aðalritari Sameinuðu þjóðanna kemur í opinbera heimsókn til þessa næsta nágrannalands Íslands.

Þær Aleqa Hammond, forsætisráðherra Grænlands, og Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, hafa síðustu daga boðið Ban Ki-moon upp á sannkallað ævintýri, farið með hann í afskekkt þorp lengst norðan heimsskautsbaugs, og tuttugu stiga frost hindraði aðalritarann ekki í að njóta náttúru Grænlands.

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna með grænlenskum sleðahundum.SÞ/Mark Garten.
Aleqa Hammond klæddi hann upp í hlý grænlensk skinnklæði og fór með hann út á ísinn þar sem hann veiddi fisk með Grænlendingum í gegnum vakir. Aleqa kenndi honum líka að stjórna hundasleða með svipu og svo var þeyst af stað eftir ísilögðum firði.

En þetta var ekki bara skemmtiferð. Ban Ki-moon var kominn til Grænlands til að sjá með eigin augum hvaða afleiðingar loftlagsbreytingar hafa á lifnaðarhætti manna. Hann sigldi um Ísfjörðinn fræga við Diskó-flóa, sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna, en skriðjökull í fjarðarbotninum skríður fram um tugi metra á dag og skilar af sér borgarísjökum í stórum stíl. Aðalritarinn notaði tækifærið til að brýna leiðtoga heims til aðgerða en hann sagði loftlagsbreytingar einhverja mestu ógn sem mannkyn stæði frammi fyrir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×