Innlent

Vinnustöðvun á Keflavíkurflugvelli

Röskun verður á flugi Icelandair næsta sólarhringinn vegna vinnustöðvunarinnar.
Röskun verður á flugi Icelandair næsta sólarhringinn vegna vinnustöðvunarinnar. Vísir/Anton
Brottför sjö véla Icelandair frá Bandaríkjunum og Kanada var frestað ytra um þrjár klukkustundir  vegna verkfallsaðgerða flugvallastarfsmanna á Keflavíkurflugvelli, sem hófust klukkan fjögur í nótt og standa til klukkan níu.

Vélarnar áttu allar að lenda á Keflavíkurflugvelli upp úr klukkan sex, en munu lenda upp úr klukkan níu. Þessi töf hefur svo keðjuverkandi áhrif á flug til Evrópu sem hefst ekki fyrr en Ameríkuvélarnar eru komnar.

Þrjár morgunvélar Wow Air frá Evrópu munu einnig verða fyrir töfum til klukkan níu. Það má því búast við óvenju mikilli örtröð í Leifsstöð um níu leitið þegar innritun, vopnaleit og önnur þjónusta í stöðinni hefst á ný.

Þá mun heimkomu allra Icelandair vélanna frá Evrópu  seinka í dag og sömuleiðis brottför Ameríkuvélanna, en Icelandair býst við að sólarhring taki að koma áætluninni í réttar skorður á ný.

Viðbúið er að einhverjir farþegar muni missa af tengiflugi ytra vegna þessa. Verkfallsmenn gáfu undanþágu vegna neyðar- og sjúkraflugs, en fréttastofu er ekki kunnugt um að reynt hafi á það.

Næsti samningafundur í kjaradeilunni verður á fimmtudag, en viðlíka aðgerðir og núna,  hafa verið boðaðar þann 23. og 25. þessa mánaðar og svo allsherjar verkfall þann þrítugasta, ef ekki semst fyrir þann tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×