Innlent

„Braust inn í ísskáp og hélt veislu fyrir sjálfan sig“

Stefán Árni Pálsson skrifar
mynd/fésbókarsíða Gistihússins á Hvanneyri
Lögreglunni á Siglufirði barst tilkynning um mann sem hafði brotist inn í ísskáp á Gistihúsinu Hvanneyri í gærkvöldi. Maðurinn hefur ekki verið ákærður og var ekki færður í fangageymslu.

Samkvæmt lögreglunni á svæðinu átti maðurinn ekki pening fyrir mat og fékk sér brauðbita úr ísskáp á gistiheimilinu.

„Þessi maður stakk af með lykil og borgaði ekki seinni nóttina sína og auk þess braust hann inn í ísskáp og hélt veislu fyrir sjálfan sig, vil bara vara við honum.” 



Þessi frásögn kemur fram á Fésbókarsíðu Gistihússins Hvanneyri á Siglufirði en um er að ræða norskan ferðamann sem kom með Norrænu til Seyðisfjarðar fyrir nokkru síðan í ævintýraferð til Íslands.

Maðurinn hefur notið vinsælda á svæðinu og ferðast með Íslendingum og vinnur hann fyrir gistingu og mat með gítar að vopni, sem hann fær lánaðan þar sem hann kemur við.



„Ég fór til lögreglunnar þegar ég sá að búið var að brjótast inn í ísskápinn og hélt hann væri farinn en svo fann ég hann í efri koju inn í herbergi – steinsofandi,” segir Þórður Andersen, eigandi Gistihússins Hvanneyri, í samtali við blaðamanninn Eirík Jónsson á síðu hans.

„Við reyndum að strauja kortið hans en það var alveg tómt. Lögreglan fór svo með hann, veit ekki hvert en hann skuldar hér tvær nætur. Fyrstu nóttina borgaði Kaffi Rauðka en þar hafði hann spilað á gítar og sungið fyrir gesti eitt kvöld,” segir Þórður en hann mun í framhaldinu fjárfesta í nýjum lás á ísskáp sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×