Enski boltinn

Liverpool með pálmann í höndunum | Sjáðu mörkin

Sterling fagnar marki sínu í dag.
Sterling fagnar marki sínu í dag. vísir/getty
Liverpool er komið í lykilstöðu í baráttunni um enska meistaratitilinn eftir 3-2 sigur á Man. City í hreint mögnuðum leik á Anfield. Liverpool er komið með fimm stiga forskot í deildinni og vinni liðið lokaleiki sína verður það meistari.

Það var rafmögnuð stemning fyrir leik enda mikið undir. Pressan hafði ekki nein áhrif á leikmenn Liverpool sem byrjuðu leikinn með látum. Strax á 6. mínútu kom Raheem Sterling þeim yfir er hann fékk nægan tíma til að athafna sig í teignum.

Liverpool slakaði ekki á klónni og Skrtel kom þeim í 2-0 með mögnuðum skalla eftir hornspyrnu Gerrard.

Það féll ekkert með City. Liðið átti að fá víti, Liverpool bjargaði tvisvar á línu og svo missti liðið sinn besta mann, Yaya Toure, meiddan af velli í fyrri hálfleiknum.

Það voru aðeins sjö mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar Suarez tók þá undarlegu ákvörðun að dýfa sér með gult spjald á bakinu. Clattenburg þorði ekki að spjalda hann og Suarez heppinn að fá ekki rautt.

Aðeins fjórum mínútum síðar galopnaðist leikurinn þegar David Silva minnkaði muninn. Varamaðurinn James Milner lagði upp markið og eftirleikurinn auðveldur fyrir Silva.

Man. City pressaði gríðarlega í kjölfarið og annað mark lá í loftinu. Það kom og var skrautlegt. Liverpool gekk ekkert að hreinsa, Silva með skot úr þröngu færi. Það fór í Glen Johnson og síðan í Mignolet markvörð og í netið. 2-2.

Suarez hefði getað fengið víti skömmu síðar en ekkert dæmt. Smá snerting en Clattenburg var ekki á því að flauta.

Leikurinn galopinn og þrettán mínútum fyrir leikslok komst Liverpool aftur yfir. Kompany ætlaði að hreinsa, hitti ekki boltann. Boltinn fór á Coutinho sem skoraði með laglegu skoti í teignum.

Í uppbótartíma fékk Jordan Henderson að líta rauða spjaldið fyrir skrautlega tæklingu á Samir Nasri. Tíminn of naumur og Liverpool fagnaði sætum sigri.

Sterling skorar fyrsta mark leiksins. Skrtel kemur Liverpool í 2-0. Silva minnkar muninn og Johnson skorar sjálfsmark. 2-2. Coutinho kemur Liverpool í 3-2.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×