Viðskipti innlent

Kostnaður við gerð skýrslunnar 607 milljónir króna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Kostnaður Rannsóknarnefndar Alþingis við gerð skýrslu um fall sparisjóðanna um aðdraganda og orsök erfiðleika og falls sparisjóðanna nam 607 milljónum króna. Þar af 355 milljónir króna í launakostnað og 178 milljónir króna í sérfræðikostnað.

Þá hafa fallið til 67 milljónir króna í sameiginlegan kostnað rannsóknarnefnda um Íbúðalánasjóð og sparisjóðanna, en þar er einkum um að ræða kostnað við húsnæði og annan rekstur.

Gróflega áætlað liggja 42 ársverk að baki skýrslunni. Kostnaðurinn sem þegar hefur fallið á ríkissjóð vegna falls og rekstrarerfiðleika sparisjóðanna er tæplega 35 milljarðar króna, auk þess sem óljóst er um endurheimtur 215 milljarða króna kröfu ríkissjóðs á hendur þrotabúi Sparisjóðabankans.

Skýrslan er ansi umfangsmikil.vísir/gva
Samkvæmt skýrslu ríkisendurskoðunar um fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins sem gefin var út í júní 2012 gaf ríkissjóður út skuldabréf fyrir 186,5 milljarða króna vegna hlutafjárframlaga til viðskiptabankanna þriggja.

Þegar nefndin tók til starfa voru henni úthlutaðir níu mánuðir til verksins.

.„Ljóst var frá upphafi að ekki tækist að leysa verkefnið á svo stuttum tíma. Það krefst sérhæfðrar þekkingar að vinna verkið enda um að ræða fjármálafyrirtæki sem lúta flóknu regluverki,“ segir í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Að verkinu kom fjöldi sérfræðinga með þekkingu á fjármálamarkaði, meðal annars löggiltir endurskoðendur. Þó að nefndinni væri sérstaklega gert að skoða hvernig staðið hefði verið að endurskoðun sparisjóðanna var enginn nefndarmanna endurskoðandi.

Nefndarmennirnir þrír stjórnuðu 53 starfsmönnum og verktökum, auk þess sem þeir komu sjálfir beint að vinnslu skýrslunnar á öllum stigum hennar.


Tengdar fréttir

872 milljónir afskrifaðar vegna tíu starfsmanna

Heildarútlán til starfsmanna Sparisjóðsins í Keflavík námu rúmum 1,5 milljörðum króna, þar af 1 milljarður í erlendri mynt. Rúmlega 872 milljónir voru afskrifaðar vegna þessara lána.

Lánsfé sótt án þess að vita til hvers

Lánsfé sparisjóða var margoft sótt á markað áður en búið var að ákveða til hvaða verkefna ætti að lána. Talið var víst að hægt yrði að lána féð út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×