Erlent

Vilja rannsókn á meintum njósnum Se og hør

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Jóakim prins og María kona hans eru meðal þeirra sem blaðamenn Se og hør eru sakaður um að hafa njósnað um .
Jóakim prins og María kona hans eru meðal þeirra sem blaðamenn Se og hør eru sakaður um að hafa njósnað um . Nordicphotos/AFP
Danskir fjölmiðlar hafa í morgun fjallað um ásakanir á hendur vikuritinu Se og hør um að blaðamenn þar hafi njósnað um kredikortafærslur þekktra einstaklinga.

Þessar ásakanir koma fram í nýrri skáldsögu eftir danska blaðamanninn Ken B. Rasmussen, sem kemur út á morgun.

Daglbaðið BT fullyrðir að þótt bókin sé skáldsaga þá hafi höfundurinn heimildir fyrir ásökunum þessum.

Fullyrt er að blaðamenn hafi á árunum 2008 til 2012 verið í tengslum við upplýsingatæknifræðing, sem í gegnum starf sitt hjá greiðslumiðlun fjármálafyrirtækja hafi haft aðgang að kreditkortafærslum einstaklinga.

„Þetta er nú reyndar skáldsaga, en hugsa sér ef þetta væri satt. Það væri hrikalegt hneyksli,” hefur dagblaðið Politiken eftir höfundinum, sem um hríð starfaði hjá Se og hør.

Danskir stjórnmálamenn krefjast þess nú, með vísan til fullyrðinga BT um að ásakanirnar í skáldsögunni eigi rök að styðjast, að málið verði rannsakað af lögreglu. Skorað er á dómsmálaráðherra að láta málið til sín taka.

„Þetta er bara skelfilegt. Auðvitað á lögreglan að rannsaka þetta,” hefur Politiken eftir Troels Ravn, fjölmiðlafulltrúa sósíaldemókrata.

Ravn segir að sér verði hugsað til Englands, þar sem blaðamenn og yfirmenn á vikuritinu News of the World urðu uppvísir að því að njósna um farsíma fjölda einstaklinga.

Í sögu Rasmussens er lýst daglegu amstri á blaðinu Se og hør. Þar eru nefndir til sögunnar ýmsir þekktir Danir, sem orðið hafi fyrir njósnum blaðsins, svo sem Jóakim prins og María kona hans.

Samkvæmt sögunni lét upplýsingatæknifræðingurinn blaðamenn vita um ýmsar kreditkortafærslur, svo sem flugmiðakaup eða greiðslur fyrir læknisþjónustu. Upp úr þessu hafi svo verið unnar fréttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×