Erlent

Trúleysingjar fylktu liði í Utah

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Uppátækið vakti mikla athygli.
Uppátækið vakti mikla athygli. vísir/ap
Hópur trúleysingja vakti athygli í borginni Salt Lake City í Utah-ríki Bandaríkjanna um páskana en trúleysingjar fylktu liði fyrir utan höfuðstöðvar Mormónakirkjunnar með mótmælaspjöld á lofti.

Al Jazeera fjallar um málið í dag og segir uppátækið vekja athygli þar sem Utah þykir eitt trúaðasta og íhaldssamasta ríki Bandaríkjanna. Þrátt fyrir það héldu Samtök bandarískra trúleysingja landsfund sinn í Salt Lake City og vöktu meðlimir misjöfn viðbrögð meðal borgarbúa.

Dan Ellis, formaður samtaka trúlausra í Utah, bað mótmælendur um að hegða sér friðsamlega. „Hvenær borðum við svo börn?,“ spurði einn mótmælendanna og uppskar hlátrasköll fyrir. Meðal mótmælenda voru fyrrverandi mormónar sem afhentu afskráningarbréf sín úr kirkjunni.

Að sögn Al Jazeera er erfitt að áætla fjölda trúlausra í Bandaríkjunum en fullyrt er að sá fjöldi hafi aukist umtalsvert.

Dave Muscaro, almannatengill Samtaka bandarískra trúleysingja, segir margar ástæður fyrir því að Salt Lake City hafi verið valin sem samkomustaður trúleysingjanna. Meðal annars hafi þeir viljað ögra yfirvöldum sem mótfallin séu hjónabandöndum samkynja para. Einnig vildu trúleysingjarnir sýna sívaxandi fjölda trúlausra í ríkinu stuðning sinn.

Nánar má lesa um mótmælin á vefsíðu Al Jazeera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×