Innlent

Allar líkur á verkfalli á föstudag

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Þetta horfir mjög þunglega og gengur mjög hægt,“ segir Hafsteinn Pálsson, formaður FÍA.
"Þetta horfir mjög þunglega og gengur mjög hægt,“ segir Hafsteinn Pálsson, formaður FÍA.
Fundi lauk í kjaradeilu flugmanna Icelandair laust fyrir klukkan 17 í dag, án árangurs. Formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) segir enga lausn í sjónmáli.

„Þetta horfir mjög þunglega og gengur mjög hægt,“ segir Hafsteinn Pálsson, formaður FÍA. Hann segir að ef miðað sé við fundinn í dag séu allar líkur á að verkfall muni skella á næstkomandi föstudag.  Ekki hafi verið lagðar fram ásættanlegar tillögur.

Aðspurður segir hann menn vissulega hafa rætt hugsanlega lagasetningu á yfirvofandi verkfall en segir enga ástæðu til að óttast það.  „Við getum ekki verið hræddir við það. Það verður bara að koma í ljós.“

Náist samningar ekki verður gripið til stuttra verkfalla á þriggja vikna tímabili. Þeirra fyrsta vinnustöðvun er boðuð eins og fyrr segir, næstkomandi föstudag , frá klukkan sex að morgni til klukkan sex að kvöldi.

Flugmenn hafa hafnað samningi með almennri launahækkun upp á 2,8 prósent sem eru sömu launahækkanir og aðildafélög Alþýðusambands Íslands fengu í síðustu kjarasamningum.

Deilendur setjast aftur við samningaborðið klukkan 13 á morgun í húsi Ríkissáttasemjara.


Tengdar fréttir

Flugmenn hjá Icelandair á leið í aðgerðir

Formaður samninganefndar flugmanna hjá Icelandair segir félagið vel hafa efni á að greiða hærri laun. Yfirstjórn félagsins hafi fengið ríflegar hækkanir og hluthafar greiddan út góðan arð.

„Allir vita að flugmenn eru vel launaðir“

Upplýsingafulltrúi Icelandair er hóflega bjartsýnn á að samningar takist áður en verkfallsaðgerðir flugmanna skella á eftir viku. Hann segir kröfur flugmanna umtalsverðar.

Flugmenn í verkfall

Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefur boðað ótímabundið yfirvinnubann flugmanna Icelandair ehf. sem mun hefjast hinn 9. maí klukkan sex að morgni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×