Innlent

Borgarstjórn skorar á velferðarráðherra að byggja hjúkrunarheimili

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Borgarstjórn skorar á heilbrigðisráðherra að standa án tafa við viljayfirlýsingu um byggingu hjúkrunarheimilis við Sléttuveg með 88 hjúkrunarrýmum. Áskorunin var samþykkt einróma á fundi borgarstjórnarinnar í dag. Biðlisti eftir hjúkrunarrýmum sé hlutfallslega lengstur í Reykjavík og fjölgun aldraðra hröðust.

Allt frá árinu 2008 hefur velferðarráðuneytið gert ráð fyrir hjúkrunarheimili á Sléttuvegi, samkvæmt tilkynningu frá borgarstjórn. Um svipað leyti hafi það verið staðfest í skipulagi borgarinnar. „Í ljósi hlutfallslegrar fjölgunar aldraðra á komandi árum mun þörf fyrir hjúkrunarrými í Reykjavík aukast,“ segir í áskoruninni.

Árið 2011 skrifuðu Reykjavíkurborg og Sjómannadagsráð undir þjónustusamning um rekstur þjónustukjarna fyrir eldri borgara við Sléttuveg með þjónustumiðstöð og um það bil 100 þjónustu- og öryggisíbúðum, sem tengdar verði hjúkrunarheimilinu.

„Bygging hjúkrunarrýma er forsenda fyrir því að fyrirhuguð uppbygging á þjónustu fyrir aldraða muni nýtast til fulls.“

Hrafnista hefur ekki getað hafið byggingu þjónustumiðstöðvar fyrr en fyrir liggur vilji ráðuneytisins til að standa við sínar eigin áætlanir og viljayfirlýsingar. Ástæðan er sú að hönnun þjónustuíbúða og þjónustumiðstöðvar Hrafnistu er tengd uppbyggingu hjúkrunarheimilis




Fleiri fréttir

Sjá meira


×