Innlent

Flugmenn enn hjá ríkissáttasemjara

Enn sitja samningamenn hjá ríkissáttasemjara til að leysa kjaradeilu flugmanna Icelandair en fundurinn hófst klukkan 13 í dag. Fundurinn er sá tíundi síðan máli flugmannanna var vísað til sáttasemjara þann 25.febrúar síðastliðinn

Hafsteinn Pálsson formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna sagði síðast í frétt á vísi að mikið bæri í milli og flugmenn myndu ekki sætta sig við kjararýrnun. Lítið hefur verið gefið upp um samningsmarkmið deiluaðila en Icelandair hefur sagt kröfur flugmanna mjög miklar.

Mikið er í húfi þar sem margir ferðamenn hafa hætt við komu til landsins vegna truflana á flugumferð og nokkur útflutningsfyrirtæki á ferskum fisk tapað miklu eða lent í verulegum vanda með að flytja afurðir úr landi.

Óveruleg truflun varð á flugi í dag en þó felldi Icelandair niður tvö flug til Bandaríkjanna. Sterkur vilji virðist vera til þess að leysa deiluna og búist er við að áfram verði fundað hjá ríkissáttasemjara fram eftir kvöldinu. Áætlað er að flug Icelandair verði samkvæmt áætlun á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×