Erlent

Umdeild atkvæðagreiðsla í Úkraínu

Bjarki Ármannsson skrifar
Kona greiðir atkvæði í borginni Donetsk í dag á meðan fulltrúi aðskilnaðarsinna stendur vörð.
Kona greiðir atkvæði í borginni Donetsk í dag á meðan fulltrúi aðskilnaðarsinna stendur vörð. Vísir/AFP
Aðskilnaðarsinnar í austurhéruðum Úkraínu standa nú fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort svæðið eigi að fá að stjórna sér sjálft. Stjórnvöld í Úkraínu og í Vesturlöndum hafa harðlega gagnrýnt þessa aðgerð.

Samkvæmt fréttasíðu BBC ríkir ringulreið á kjörstað, engin kjörskrá liggur fyrir og engir kjörklefar eru á staðnum. 

Það eru sjálfskipaðir leiðtogar í héruðunum tveimur, Donetsk og Luhansk, sem standa á bak við atkvæðagreiðsluna. Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefur biðlað til þeirra að fresta henni en þeirri bón var ekki hlýtt. 

Á atkvæðaseðlum er aðeins ein spurning, á úkraínsku og á rússnesku. Hún er: „Styður þú sjálfsstjórnun Þjóðarlýðveldisins Donetsk / Þjóðarlýðveldisins Luhansk?“ Skipuleggjendur hafa gefið í skyn að þeir ætli næst að halda atkvæðagreiðslu um hvort svæðið eigi að tilheyra Rússlandi, en fjölmargir íbúar svæðisins tala rússnesku eða eru af rússneskum ættum.

Fulltrúar Bandaríkjanna og Evrópusambandsins hafa lýst yfir áhyggjum sínum af því að deilur í Úkraínu gætu leitt til borgarastyrjaldar. Sömuleiðis hefur starfandi forseti landsins, Olexander Túrtsjínov, sagt að atkvæðagreiðslan gæti haft skelfilegar afleiðingar í för með sér.


Tengdar fréttir

Vilja innlima fleiri héruð í Rússland

200 mótmælendur, hliðhollir Rússum, brutust inn í stjórnsýslubyggingu í borginni Donetsk í Austurhluta Úkraínu. Þeir krefjast þess atkvæðagreiðslu um sameiningu við Rússland.

30.000 hermenn við landamæri Úkraínu

Nýleg skýrsla leyniþjónusta Bandaríkjanna segir að líklegra sé en áður hefur verið talið að rússneskir hermenn muni fara inn í austur Úkraínu.

Átök fara harðnandi í Úkraínu

Þrír eru látnir og að minnsta kosti þrettán særðir eftir átök aðskilnaðarsinna og úkraínskra hermanna í hafnarborginni Mariupol í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×