Lífið

Hátt í 500 starfsmenn á Secret Solstice

Um fimm hundruð manns munu starfa á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem verður haldin í Laugardalnum 20. til 22. júní, að sögn Carmen Jóhannsdóttur, aðstoðarframleiðslustjóra hátíðarinnar. Hún var í viðtali í fyrsta þættinum af Secret Solstice: Upphitun, sem sýndur er hér á Vísi.

Hún segir hátíðina hafa veirð auglýsta út um alla Evrópu. „Það er búið að setja mikla pressu á okkur. Við erum komin á topp 10 lista hjá Times, BBC og Resident Advisor, þannig að það er allt að gerast.“

Carmen segir að enskir aðilar sem sérhæfi sig í uppsetningu útihátíða, og komi að uppsetningu Secret Solstice, telji Laugardalinn vera klæðskerasniðinn til þess að halda svona hátíðir. „Þeim finnst í raun ótrúlegt að svona hátíð hafi ekki verið haldin áður hérna,“ útskýrir Carmen.

Í þættinum fer Carmen yfir hvar helstu sviðin verða staðsett og fer yfir breytingar sem gerðar verða á Skautahöll Reykjavíkur, sem verður breytt í svokallað Rave og mun taka þrjú þúsund gesti. Mörg svið verða á hátíðinni og fjöldi matsölustaða mun selja svöngum gestum mat, eins og Carmen útskýrir.

Í fyrsta þættinum af Secret Solstice: Upphitun er einnig rætt við Rögnu Kjartansdóttur, eða Cell7. Hún haf út rappplötu fyrir síðustu jól sem fékk mjög góða dóma. Ragna segist hlakka mikið til að spila á hátíðinni. Hljómsveitin Fox Train Safari kemur líka í heimsókn. Meðlimir hennar segjast ætla að taka gesti hátíðarinnar í náttúrulegt ferðalag.

Hér að ofan má sjá fyrsta þáttinn af Secret Solstice: Upphitun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×