Enski boltinn

Kroos býst við að spila áfram með Bayern á næsta tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Toni Kroos.
Toni Kroos. Vísir/Getty
Toni Kroos, miðjumaður Bayern München, er ekkert á förum frá þýsku meisturunum ef marka má nýjasta viðtalið við kappann en leikmaðurinn hefur verið orðaður við Manchester United.

Kroos er 24 ára gamall og hefur verið lykilmaður á miðju þýska liðsins. Hann á eftir eitt ár af samningi sínum en hefur ekki enn verið boðinn nýr samningur.

„Það var mikið um vangaveltur en Manchester hefur aldrei verið inn í myndinni. Ég býst við því að spila með Bayern München á næsta tímabili," sagði Toni Kroos við þýska blaðið Bild.

Toni Kroos skoraði 2 mörk og gaf 4 stoðsendingar í 29 leikjum í þýsku deildinni á tímabilinu en eina markið hans í Meistaradeildinni kom á móti Arsenal í 2-0 sigri Bayern á Emirates.

Manchester United þarf að flestra mati að styrkja sitt lið verulega fyrir næsta tímabil og þar á meðal á miðjunni. Það lítur út fyrir að Kroos verði þó ekki einn af nýju mönnunum á Old Trafford á komandi leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×