Fótbolti

Prandelli: Pogba er besti miðjumaður í heimi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cesare Prandelli er mjög hrifinn af ungstirninu Paul Pogba.
Cesare Prandelli er mjög hrifinn af ungstirninu Paul Pogba. Vísir/Getty
Cesare Prandelli, landsliðsþjálfari Ítalíu, var ekki spar á hrósið þegar hann ræddi við franska blaðið L'Equipe um miðjumann Frakklands og Ítalíumeistara Juventus, Paul Pogba.

"Pogba er besti miðjumaður í heiminum," sagði Prandelli. "Hann getur leikið nokkrar stöður. Hann býr yfir framúrskarandi líkam- og tæknilegum eiginleikum.

"Hann tímasetur hlaupin sín inn í vítateig andstæðinganna vel og veit hvernig hann á að valda mótherjunum vandræðum. Ennfremur er hann sterkur persónuleiki," sagði Prandelli við.

Pogba, sem er 21 árs, kom til Juventus frá Manchester United árið 2012 og hefur orðið Ítalíumeistari með liðinu í tvígang.

Pogba þreytti frumraun sína með franska landsliðinu í 3-1 sigri á Georgíu 22. mars 2013 og hefur alls leikið 11 leiki og skorað tvö mörk fyrir Frakkland. Þá var hann fyrirliði U-20 ára landsliðs Frakka sem varð heimsmeistari í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×