Erlent

Stofnandi Pirate Bay handtekinn

Randver Kári Randversson skrifar
Peter Sunde, einn stofnenda Pirate Bay, var handtekinn á laugardag.
Peter Sunde, einn stofnenda Pirate Bay, var handtekinn á laugardag. Mynd/AFP
Peter Sunde, einn stofnenda skráadeilingasíðunnar Pirate Bay hefur verið handtekinn í Svíþjóð, eftir tvö ár á flótta. BBC greinir frá þessu.

Sunde var dæmdur til átta mánaða fangelsisvistar í Svíþjóð árið 2012 fyrir brot á höfundaréttarlögum en fannst ekki þegar hann átti að hefja afplánun og hafði frá þeim tíma verið eftirlýstur af Interpol.

Talið er að hann hafi verið í felum í Þýskalandi síðastliðin tvö ár, en ekki er ljóst hvers vegna hann var staddur í Svíþjóð þegar hann var handtekinn síðastliðinn laugardag. Handtakan fór fram degi eftir að ljóst varð að Sunde hafði ekki náð kjöri í kosningunum til Evrópuþingsins, en hann var í framboði fyrir finnska arm Sjóræningjaflokksins (e. Pirate Party), sem berst fyrir endurbótum á höfundarréttarlögum.

Lögmaður Sunde sagðist í sænskum fjölmiðlum vera fullviss um að 10 ára barátta skjólstæðings síns fyrir auknu frelsi í deilingu efnis á netinu muni bera árangur að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×