Fótbolti

Lukaku vill fá tækifærið hjá Chelsea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Romelu Lukaku raðaði inn mörkum fyrir Everton í vetur.
Romelu Lukaku raðaði inn mörkum fyrir Everton í vetur. vísir/getty
Belgíski framherjinn RomeluLukaku vonast til að fá tækifæri hjá Chelsea á næstu leiktíð en hann þarf líklega að bíða þar til eftir HM í Brasilíu til að fá að vita hvar hann spilar á næsta tímabili.

Þessi 21 árs gamli strákur gekk í raðir Chelsea frá Anderlecht árið 2011 og hefur aðeins spilað einu sinni fyrir Lundúnaliðið. Hann hefur aftur á móti slegið í gegn á síðustu tveimur leiktíðum sem lánsmaður hjá West Brom og Everton.

Hann á tvö ár eftir af samningi sínum við Chelsea en hefur verið orðaður við enn eitt lánið, nú til Atlético Madríd. Talið er að það verði hluti af kaupverði Chelsea á spænska framherjanum Diego Costa.

„Það væri gaman að vita eitthvað áður en HM byrjar en það er ekki að fara að gerast. Ég einbeiti mér því algjörlega að HM,“ segir Lukaku í viðtali við belgíska dagblaðið Nieuwsblad.

„Ég á enn tvö ár eftir af samningnum við Chelsea sem er stærsta félag á Englandi. Ég vonast enn til að fá að spila þar. Chelsea er með svo góðan þjálfara,“ segir Belginn.

Lukaku er í miklu stuði inn á vellinum þessa dagana en hann fylgdi eftir þrennu gegn Lúxemborg með fallegu marki gegn Svíþjóð í vináttulandsleik í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×