Fótbolti

Karim Benzema afgreiddi tíu Hondúra

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Karim Benzema var frábær í dag.
Karim Benzema var frábær í dag. vísir/getty
Frakkland er efst í E-riðli HM 2014 eftir fyrstu umferð en liðið vann Hondúras, 3-0, í Porto Alegre í kvöld.

Frökkum gekk illa að koma boltanum í netið til að byrja með en reyndasti leikmaður Hondúras, Wilson Palacios, gerði þeim greiða með því að fá tvö heimskuleg gul spjöld í fyrri hálfleik og láta reka sig af velli.

Það síðara fékk hann fyrir að keyra í bakið á Paul Pogba í teignum og víti dæmt í þokkabót. Karim Benzema fór á punktinn og skoraði á 45. mínútu, 1-0.

Eftir tæpar þrjár mínútur í seinni hálfleik átti Benzema svo fastan skalla í slána, en af henni fór knötturinn í bakið á markverði Hondúras og í netið, sjálfsmark.

Benzema hélt áfram að hrella varnarmenn Hondúra og skoraði þriðja markið á 72. mínútu en Real Madrid-maðurinn var í stuði í kvöld. Lokatölur, 3-0.

Frakkland er efst í riðlinum á markatölu en Sviss er með þrjú stig lík og Frakkar eftir 2-1 sigur á Ekvador fyrr í dag.

Vísir/getty
vísir/getty
vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×