Fótbolti

Óvæntur sigur Kosta Ríka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joel Campbell átti frábæran leik fyrir Kosta Ríka í kvöld
Joel Campbell átti frábæran leik fyrir Kosta Ríka í kvöld Vísir/Getty
Kosta Ríka vann óvæntan 3-1 sigur á Úrúgvæ í fyrsta leik D-riðils á HM í Brasilíu í kvöld.

Edinson Cavani
kom Úrúgvæ yfir á 24. mínútu með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að Júnior Díaz braut á Diego Lugano, fyrirliða Úrúgvæa.

Skömmu síðar átti Joel Campbell, framherji Kosta Ríka, þrumuskot sem fór rétt framhjá marki Úrúgvæa.

Skömmu fyrir leikhlé bjargaði Keylor Navas, markvörður Kosta Ríka, sínum mönnum þegar hann varði skot Diegos Forlán, sem fór af varnarmanni, á frábæran hátt.

Kosta Ríka-menn mættu svo ákveðnir til leiks í seinni hálfleik. Joel Campbell jafnaði leikinn á 54. mínútu með góðu skoti eftir aukaspyrnu Cristians Gamboa og þremur mínútum síðar kom Oscar Duarte Kosta Ríka yfir með skallamarki eftir aukaspyrnu Christians Bolaños.

Kosta Ríka-menn bættu svo þriðja markinu við þegar varamaðurinn Marcos Ureña skoraði eftir stungusendingu frá Campbell. Þetta var fyrsta mark Ureña fyrir landsliðið í rúm tvö ár.

Maxi Pereira fékk svo að líta rauða spjaldið í uppbótartíma fyrir að sparka í Campbell.

Luis Suarez lék ekki með Úrúgvæ í kvöld vegna meiðsla.

Klukkan 22:00 mætast svo England og Ítalía í seinni leik dagsins í D-riðli. Leikurinn er sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2, strax að HM-messunni lokinni.

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×