Fótbolti

Klose jafnaði met Ronaldo þegar Þýskaland og Gana gerðu jafntefli

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Klose skorar af stuttu færi. Hefur gert það áður
Klose skorar af stuttu færi. Hefur gert það áður vísir/afp
Þýskaland og Gana gerðu 2-2 jafntefli í G-riðli heimsmeistarakeppninnar í fótbolta í Brasilíu. Öll mörkin voru skoruð í seinni hálfleik.

Það var markalaust í hálfleik og fátt um fína drætti. Liðin áttu í vandræðum með að skapa sér færi og fátt til að gleðjast yfir.

Svo kom hálfleikur og seinni hálfleikur hófst stundarfjórðungi síðar og fyrri hálfleikur var skyndilega fjarlæg minning á leið til gleymsku.

Seinni hálfleikur var allt sem fyrri hálfleikur var ekki. Hraður og fjörugur, fullur af dramatík og sviptingum. Það eina sem vantaði var sigurmark á síðustu mínútunni. En liðin reyndu, það verður ekki tekið af þeim.

Mario Götze hóf þetta allt saman á 51. mínútu þegar hann skallaði sendingu Thomas Müller í hnéið á sér og í netið.

Forysta Þjóðverja dugði í þrjár mínútur eða allt þar til Andre Ayew skoraði með óverjandi skalla. Níu mínútum síðar eða á 63. mínútu kom Asamoah Gyan yfir eftir sendingu Sulley Muntari og Gana skyndilega komið yfir.

Þá leit Joachim Löw þjálfari Þjóðverja á varamannabekkinn og setti tvo gamalreynda refi inn á. Bastian Schweinsteiger og Miroslav Klose komu inn á á 69. mínútu og tveimur mínútum síðar var Klose búinn að jafna leikinn eftir hornspyrnu.

Klose skoraði þar 15. mark sitt á HM og jafnaði markamet hins brasilíska Ronaldo í lokakeppni HM.

Þýskaland er með fjögur stig eftir tvo leiki en þetta var fyrsta stig Gana í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×