Fótbolti

Robben frá því að hann fiskaði vítið þar til að Huntelaar skoraði - myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arjen Robben fagnar hér sigrinum á Mexíkó.
Arjen Robben fagnar hér sigrinum á Mexíkó. Vísir/Getty
Hollendingurinn Arjen Robben átti mikinn þátt í sigri Hollands á Mexíkó í sextán liða úrslitunum á HM í Brasilíu en hann fiskaði vítið sem skilaði Hollandi sigurmarkinu í uppbótartíma leiksins.

Robben baðst afsökunar fyrir að hafa verið með leikaraskap í leiknum en þó ekki í umræddu víti. FIFA ætlar ekki að refsa hollenska leikmanninum fyrir að hafa viðurkennt dýfur í þessum leik.

Það eru margar myndavélar í gangi á hverjum leik á HM og ein þeirra myndaði bara Arjen Robben í þessum leik Hollands og Mexíkó. Nú er hægt að sjá myndbandið með Robben frá því að hann fiskaði vítið þar til að Huntelaar skoraði úr vítinu.

Þar sést Arjen Robben sækja boltann og búa sig undir að taka vítið. Dirk Kuijt segir við hann að taka vítið og verða markakóngur en Robben fer síðan og spyr Klaas Jan Huntelaar hvort hann vilji taka vítið. Huntelaar segir já og Robben lætur hann fá boltann.

Seinna í myndbandinu sést einnig þegar Robben ræðir um brotið við ósátta leikmenn Mexíkó þar á meðal við Rafael Márquez sem braut á honum.

Í lok myndbandsins sem má sjá hér fyrir neðan sjást síðan viðbrögð Robben þegar Huntelaar skorar úr vítinu en Robben sparaði sér það að hlaupa á eftir Huntelaar og félögum sínum en ánægjan leyndi sér ekki á andliti hans.

Það er mjög athyglisvert að sjá hvað mikið er í gangi hjá Robben á þessum tíma þegar þeir sem horfðu á leikinn eru að sjá allt aðrar myndir heima í stofu.

Vísir/Getty

Robben playercam penalty foul vs Mexico Worldcup 2014 from Luto Media on Vimeo.


Tengdar fréttir

Robben: Mun aldrei gleymast

Robben segir að sínir menn þurfi að vera vel með á nótunum í leik dagsins gegn Mexíkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×