Fótbolti

Læknir Brasilíumanna segir að Neymar verði ekki meira með á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar
Neymar Vísir/Getty
Læknir brasilíska landsliðsins í fótbolta staðfesti í kvöld að Neymar, aðalstjarna brasilíska landsliðsins, verði ekki meira með á HM í fótbolta í Brasilíu en framherjinn snjalli meiddist á baki í kvöld í 2-1 sigri Brasilíu á Kólumbíu.

Neymar brákaðist á hryggjarlið þegar hann fékk þungt högg í bakið frá Juan Zuniga, varnarmanni Kólumbíu. Neymar var borinn af velli og fluttur á sjúkrahús.

Luiz Felipe Scolari sagði á blaðamannafundi eftir leikinn að menn hafi verið með veiðileyfi á Neymar í síðustu þremur leikjum en þá var hann ekki búinn að fá það staðfest að Neymar geti ekki verið með í undanúrslitaleiknum á móti Þýskalandi.

„Þetta er ekki svo alvarlegt að hann þurfi að fara í aðgerð en hann má ekkert hreyfa sig næstu daga á meðan hann er að ná sér," sagði Rodrigo Lasmar, læknir brasilíska liðsins í sjónvarpsviðtali í Brasilíu í kvöld.

Neymar hefur skorað fjögur mörk í fyrstu fimm leikjum Brasilíu á HM og lagði upp fyrra mark liðsins í sigrinum á Kólumbíu.

Brasilía verður því bæði án Neymar og fyrirliðans Thiago Silva í undanúrslitaleiknum á móti Þýskalandi en Thiago Silva tekur þá út leikbann.




Tengdar fréttir

David Luiz og Dani Alves hugguðu James í leikslok - myndir

Kólumbíumaðurinn James Rodríguez kemur örugglega til greina sem besti leikmaður HM í Brasilíu þrátt fyrir að hann hafi spilað sinn síðasta leik í átta liða úrslitunum í 1-2 tapi á móti Brasilíu í kvöld.

James tapaði í kvöld en komst í fámennan HM-hóp

Kólumbíumaðurinn James Rodríguez var í kvöld aðeins sjötti leikmaðurinn í sögu HM í fótbolta sem nær að skora sex mörk í fyrstu fimm leikjum sínum á HM í fótbolta og aðeins Pele var yngri þegar hann skoraði sitt sjötta HM-mark.

Fyrsti fyrirliði Brasilíu til að skora á HM í 20 ár

Miðvörðurinn Thiago Silva skoraði sitt fyrsta mark á HM á frábærum tíma í kvöld þegar hann kom Brasilíu í 1-0 á móti Kólumbíu í leik liðanna í átta liða úrslitunum á HM í fótbolta í Brasilíu.

Neymar upp á spítala?

Neymar, aðalstjarna brasilíska landsliðsins, var borinn af velli í kvöld þegar Brasilía vann 2-1 sigur á Kólumbíu í átta liða úrslitum HM í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×