Fótbolti

Fyrsti fyrirliði Brasilíu til að skora á HM í 20 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thiago Silva og Paulinho fagna markinu.
Thiago Silva og Paulinho fagna markinu. Vísir/AP
Miðvörðurinn Thiago Silva skoraði sitt fyrsta mark á HM á frábærum tíma í kvöld þegar hann kom Brasilíu í 1-0 á móti Kólumbíu í leik liðanna í átta liða úrslitunum á HM í fótbolta í Brasilíu.

Fyrirliðar Brasilíumanna eru vanalega ekki í stórum hlutverkum í sókninni sem sést kannski vel á því að mark Thiago Silva í kvöld var fyrsta mark fyrirliða Brasilíu á HM í tuttugu ár.

Thiago Silva skoraði markið með hnénu af stuttu færi eftir að hornspyrna Neymar datt fyrir hann strax á 7. mínútu leiksins en Thiago Silva hafði einmitt lagt upp eina mark brasilíska liðsins í sextán liða úrslitunum á móti Síle.

Thiago Silva er fyrsti fyrirliði landsliðs Brasilíu til að skora síðan að miðjumaðurinn Raí de Oliveira skoraði úr vítaspyrnu í 2-0 sigri á móti Rússum í fyrsta leik liðsins á HM í Bandaríkjunum 1994.

Svo skemmtilega vill til að Raí de Oliveira spilaði þá með Paris St Germain alveg eins og Thiago Silva gerir nú.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×