Fótbolti

Rúnar Páll: Okkar stærsti leikur | Aldrei séð Toft spila

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Daníel
Stjörnumenn mæta Motherwell ytra í fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA í kvöld.

Stjarnan fór auðveldlega með Bangor City frá Wales í fyrstu umferðinni, samanlagt 8-0, en Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, reiknar með mun erfiðari leik í kvöld.

Hann segir að undirbúningur hafi gengið vel og að öll aðstaða sé til fyrirmyndar í Skotlandi. „Menn eru vel gíraðir í leikinn enda sá stærsti í sögu félagsins,“ sagði hann í samtali við Vísi í dag.

Motherwell hafnaði í öðru sæti skosku úrvalsdeildarinnar í vor og Rúnar Páll segir að liðið sé afar sterkt. Það er hins vegar á miðju undirbúningstímabili og vonast þjálfarinn til að Stjörnumenn séu í betra standi.

„Þar að auki eru nokkrar breytingar á liðinu. Þrír leikmenn eru farnir síðan á síðasta tímabili og einn meiddist í æfingaleik liðsins gegn Fulham um síðustu helgi. Liðið gæti því verið nokkuð breytt frá þeim leikjum sem við höfum séð og greint.“

Rúnar Páll reiknar með því að Skotarnir muni hefja leikinn af krafti, sækja grimmt reyna að skora snemma. „Við erum tilbúnir fyrir þann pakka. Hraðinn í þeirra leik er ólíkur þeim sem íslensk lið eru vön og við þurfum að vera undirbúnir fyrir það.“

Hann segir að áherslan verði fyrst og fremst lögð á varnarleikinn og að tryggja að Garðbæingar eigi enn möguleika fyrir seinni leikinn sem fer fram á heimavelli þeirra í næstu viku.

„Við ætlum samt að vera óhræddir við að spila okkar leik enda skiptir máli að njóta þess að spila leiki sem þessa,“ ítrekar Rúnar Páll.

Rolf Toft, nýi leikmaðurinn í liði Stjörnunnar, er kominn með leikheimild en Rúnar Páll segir að hann verði ekki í byrjunarliðinu í kvöld en gæti komið við sögu. Hann hefur þó ekki enn séð kappann spila.

„Við treystum Henryk [Bödker, markvarða- og aðstoðarþjálfara Stjörnunnar] fyrir þessu. Hann hefur ekki klikkað hingað til,“ segir Rúnar Páll.

„Við erum með ákveðna uppskrift af leikmönnum sem við viljum fá og Henryk hefur verið flinkur við að sigta þá út í Danmörku. Þessi strákur leit mjög vel út á æfingu í gær - í góðu formi, með góðar sendingar og er hraður.“

„Það er aldrei að vita hvort hann spili í kvöld - við metum það þegar þar að kemur.“

Leikurinn hefst klukkan 18.45 í kvöld og verður fylgst með gangi mála á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins.


Tengdar fréttir

Danskur framherji til Stjörnunnar

Rolf Toft samdi við Stjörnuna í gær um að leika með liðinu út tímabilið. Verður hann því annar danski framherji liðsins á tímabilinu á eftir Jeppe Hansen sem lék níu leiki með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×