Fótbolti

Varamarkvörður Monaco hefur ekki brugðist Argentínu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sergio Romero hefur unnið níu af ellefu leikjum sínum á HM 2010 og 2014.
Sergio Romero hefur unnið níu af ellefu leikjum sínum á HM 2010 og 2014. vísir/getty
Sergio Romero, markvörður argentínska landsliðsins í knattspyrnu, hefur staðið sig með sóma á HM í Brasilíu.

Hann er búinn að fá á sig þrjú mörk, en halda hreinu þrisvar sinnum og mun standa á milli stanganna í kvöld þegar Argentína mætir Þjóðverjum í sjálfum úrslitaleiknum.

„Í dag verður þú hetja, er það alveg á hreinu?“ sagði Javier Mascherano, miðjumaður Argentínu, við Romero fyrir vítaspyrnukeppnina gegn Hollandi í undanúrslitunum. Hann var með það alveg á hreinu; varði tvær spyrnur og kom Argentínumönnum í úrslitaleikinn.

Romero spilar stærsta fótboltaleik heims í kvöld, en hann var eflaust orðinn ansi smeykur um að hann yrði ekki aðalmarkvörður Argentínu á mótinu. Hann er nefnilega ekki aðalmarkvörður síns félagsliðs.

Þessi ágæti markvörður sat á varamannabekk Monaco í frönsku 1. deildinni í allan vetur en fékk þrátt fyrir það traustið hjá Alejandro Sabella, þjálfara Argentínu.

„Ég verð að taka ákvörðun og ég mun halda mig við sömu þrjá markverðina,“ sagði Sabella fyrir HM. Það hefur borgað sig, en DiegoSimeone, þjálfari Atlético Madrid, hefur verið mjög hrifinn af Romero á mótinu.

„Hann var virkilega góður á móti Íran. Ef þú ert með leikmann eins og Messi sem getur unnið leiki með einni spyrnu og markvörð sem vex með hverjum leik ertu í góðum málum. Ég er svo ánægður fyrir hans hönd. Romero er hógvær strákur sem leggur mikið á sig,“ segir Diego Simeone.


Tengdar fréttir

Schweinsteiger: Fullir tilhlökkunar

Bastian Schweinsteiger, miðjumaður Bayern München og þýska landsliðsins, er bjartsýnn fyrir úrslitaleikinn gegn Argentínu á heimsmeistaramótinu í Brasilíu sem fer fram í kvöld á Maracana vellinum í Rio de Janeiro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×