Enski boltinn

Tilboð Barcelona í Suárez samþykkt

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Mynd/Twitter-síða Barcelona
Liverpool staðfesti rétt í þessu að félagið hefði samþykkt tilboð Barcelona í Luis Suárez. Suárez sem er 27 ára hefur samþykkt undir fimm ára samning hjá Barcelona.

Félagsskiptin hafa legið í loftinu undanfarna daga og hefur Liverpool staðfest að félagið hafi samþykkt tilboð Barcelona. Talið er að Barcelona greiði 75 milljónir punda fyrir Suárez og verður hann því þriðji dýrasti leikmaðurinn í sögunni.

Verður hann kynntur til leiks sem leikmaður Barcelona í næstu viku eftir að hann hefur staðist læknisskoðun.

Verður hann síðan kynntur til leiks í sérstökum sal þar sem honum er ekki heimilt að koma á Nou Camp vegna banns sem hann var settur í fyrir að bíta Giorgio Chiellini.

Suárez átti stórkostlegt tímabil á síðasta ári en hann skoraði 31 mark í 33 leikjum með Liverpool sem var hársbreidd frá því að vinna ensku úrvalsdeildina.

„Við viljum þakka Luis fyrir hans framlag og þátt í því að hjálpa Liverpool að ná aftur Meistaradeildarsæti. Allir hjá Liverpool óska Luis og fjölskyldu hans velfarnaðar í framtíðinni,“ segir í yfirlýsingunni frá Liverpool.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×