Fótbolti

Sabella: Leikmennirnir eru þreyttir

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/Getty
Alejandro Sabella, þjálfari argentínska landsliðsins, óttast að þreyta gæti orðið Argentínumönnum að falli í úrslitaleik Heimsmeistaramótsins.

Argentína mætir Þýskalandi í úrslitum á sunnudaginn en Þýskaland fær auka dag í hvíld eftir undanúrslitaleikina. Þýskaland vann undanúrslitaleik sinn gegn Brasilíu nokkuð auðveldlega og gat Joachim Löw, þjálfari Þýskalands, leyft sér að hvíla leikmenn í seinni hálfleik.

Leikmenn Argentínu neyddust hinsvegar til þess að leika 120 mínútur gegn Hollandi áður en úrslitin réðust loksins í vítaspyrnukeppni í gær.

„Leikmennirnir mínir voru þreyttir og aumir í vöðvunum eftir stríðið gegn Hollandi. Við eigum erfiðan leik framundan gegn jafn vel skipulögðu og undirbúnu liði og Þýskalandi en við munum gera allt sem við getum til þess að sigra fyrir fólkið heima,“ sagði Sabella sem hrósaði Javier Mascherano fyrir hetjulega frammistöðu í gær.

„Hann er tákn argentínska liðsins. Án hans hefðum við ekki komist í undanúrslitin, hann bar liðið á herðum sínum og ég get ekki hrósað honum nóg fyrir tæklinguna undir lok venjulegs leiktíma þegar hann stöðvaði Arjen Robben,“ sagði Sabella.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×