Enski boltinn

Stjóri Gylfa: Bony fer ekki nema fyrir stjarnfræðilega háa upphæð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wilfried Bony gerði vel hjá Swansea á síðustu leiktíð.
Wilfried Bony gerði vel hjá Swansea á síðustu leiktíð. vísir/getty
Garry Monk, knattspyrnustjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Swansea, segir framherjann Wilfried Bony ekki á leið frá liðinu, en hann hefur verið sterklega orðaður við Liverpool í sumar.

Fílabeinsstrendingurinn, sem varð markahæstur í hollensku úrvalsdeildinni fyrir rúmu ári síðan, byrjaði vel hjá Swansea á síðustu leiktíð og skoraði 25 mörk í öllum keppnum.

Liverpool gæti nú farið á fullt í að reyna fá Bony til liðsins eftir að ekkert varð úr kaupunum á franska framherjanum Loic Remy. Brendan Rodgers ætlar að bæta framherja í hópinn.

„Það er áhugi á nokkrum leikmönnum okkar. Þannig er það bara. En Wilf er leikmaður Swansea City,“ segir Monk í viðtali við South Wales Evening Post.

„Allt sem hefur verið sagt um hann í sumar hefur komið frá blaðamönnum. Við erum ekki dagblað - við hugsum bara um raunveruleikann.“

„Eins og staðan er hefur ekkert lið haft samband vegna Wilf. Við getum ekki staðið í neinu fram á síðasta dag og misst hann rétt fyrir mót. Þegar allt kemur til alls er hann ekki til sölu nema eitthvað lið bjóði stjarnfræðilega háa upphæð. Nema það gerist verður hann áfram hjá okkur,“ segir Garry Monk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×