Erlent

Noregur enn í viðbragðsstöðu: „Við vitum ekki hversu lengi þetta mun vara“

Bjarki Ármannsson skrifar
Vopnaður lögregluþjónn fyrir utan aðallestarstöðina í Osló.
Vopnaður lögregluþjónn fyrir utan aðallestarstöðina í Osló. Nordicphotos/AFP
Lögregla í Noregi verður áfram í viðbragðsstöðu um helgina en bætir ekki við öryggisgæslu sína nema þess þurfi. Odd Reidar Humlegård lögreglustjóri staðfesti þetta á blaðamannafundi fyrr í dag. VG greinir frá.

Vopnaðir lögreglumenn hafa víða verið áberandi eftir að yfirvöld tilkynntu um það að þeir byggju yfir upplýsingum um það að til standi að gera hryðjuverkaárás á landið.

„Það eru engar stórar breytingar,“ sagði Humlegård í dag. „Við miðum áfram viðbúnað okkar við áhættumat öryggislögreglunnar. Við ætlum að bæta við mannafla svo við getum haldið lengi úti í viðbragðsstöðu. Við vitum ekki hversu lengi þetta ástand mun vara.“

Þegar í gær var hafið að kalla lögreglumenn heim úr fríum sínum. Von er á nýju áhættumati síðar í kvöld. Humlegård lagði mikla áherslu á það að Noregur hafi aldrei verið jafn vel viðbúinn til að takast á við hryðjuverkahættuna og nú.

„Það er mikilvægt að almenningur sé ekki haldinn ástæðulausum ótta,“ sagði hann. „Við vitum enn ekki hvenær eða hvar hryðjuverkin ættu að eiga sér stað. Við leitum hugsanlegra hryðjuverkamanna, við vitum ekki hverjir þeir eru eða hvernig þeir líta út. Við viljum að fólk láti okkur vita ef það verður vart við eitthvað óvenjulegt og grunsamlegt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×