Að minnsta kosti sjö manns létu lífið í skotárás nálægt UCSB háskólanum í Kailforníu í gærkvöldi. Meðal hinna látnu er sá sem grunaður er um árásina.
Sjö til viðbótar eru slasaðir að sögn lögreglustjórans, Bill Brown. „Þetta er augljóslega verk brjálaðs manns.“ Árásina segir hann hafa verið skipulagða sem morð en tilviljun hafi þó ráðið hverjir urðu fyrir henni.
Lögreglan hefur ekki gefið út hver sá grunaði er. En Brown segir myndband sem sem birt var á vefsíðunni YouTube í gær tengjast árásinni.
Í myndbandinu má sjá ungan mann sem kynnir sig undir nafninu Elliot Rodger og segist vera 22 ára. Hann situr við stýrið á bíl og segir myndbandið vera sitt síðasta. Segist hann hafa verið einmana síðustu átta ár og sé orðinn þreyttur á að vera sífellt hafnað af kvenfólki.
Rodger er yfirvegaður er hann segist ætla að verða öllum þeim sem verða á leið hans að bana. „Ég mun njóta þess að drepa ykkur öll. Þið munið loksins sjá að ég er ykkur æðri,“ segir hann.
„Ég verð guð á miðað við ykkur. Þið verðið dýr. Þið eruð dýr og ég mun slátra ykkur eins og dýrum. Ég hata ykkur öll. Mannkynið er ógeðslegt, aumt og siðspillt.“
Nemandi við háskólann, Michael Vitak, sem varð vitni að árásinni sagði í samtali við fréttastofu ABC að hann hefði séð skotið úr BMW bifreið. Skotið hefði hæft eina konu sem lést og aðra konu sem særðist illa.
„Ég heyrði skothljóð og öskur,“ sagði hann. „Ég vona að það sé í lagi með konuna.“
Erlent