Fótbolti

Ribery varar við aukinni hörku

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Tekist á á æfingu hjá Bayern
Tekist á á æfingu hjá Bayern vísir/getty
Franck Ribery kantmaður Þýskalandsmeistara Bayern Munchen í fótbolta segir dómara þurfa að vera meðvitaða um að andstæðingar Bayern muni beita aukinni hörku gegn liðinu í vetur.

Bayern vann þrennuna 2013, Meistaradeildina, þýsku deildina og þýska bikarinn, og tvennuna, deild og bikar, nú í vor. Liðið hafði mikla yfirburði í Þýskalandi á síðustu leiktíð og stór hluti liðsins varð svo heimsmeistari í Brasilíu í sumar.

Frakkinn Ribery segir þennan frábæra árangur hvetja öll lið sem mæta þeim og auka á hörkuna í leikjum liðsins því það vilja allir láta meistarana finna fyrir því.

„Andstæðingar Bayern láta alltaf finna fyrir sér. Þeir vilja gera allt sem þeir geta til að leggja meistarana að velli,“ sagði Ribery.

„Og nú vilja allir sanna sig gegn heimsmeisturunum okkar.

„Enginn segir neitt við heilbrigðri og sanngjarnri hörku. Hún er hluti af fótbolta en dómarar verða að fylgjast vel með og sjá til þess að ekki sé farið yfir strikið.

„Það þarf líka að vernda okkur, sem leikmenn,“ sagði Frakkinn knái.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×