Erlent

Bandarískir hermenn komnir til Íraks

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jasaídar á göngu yfir Tígrísá þar sem liggja landamæri til Sýrlands.
Jasaídar á göngu yfir Tígrísá þar sem liggja landamæri til Sýrlands. Vísir/AFP
Bandarískir sérsveitarmenn eru nú komnir að Sindjar-fjöllum í Írak þar sem þeir vinna að því að koma tugþúsund Jasaídum til aðstoðar í kjölfar uppgangs samtakanna Íslamskt ríki (IS) á síðustu vikum.

Sérsveitarmennirnir hafa nýtt síðustu klukkustundir í að vega og meta þær aðstæður sem Jasaídar og hjálparsamtök standa frammi fyrir en hersveitir Kúrda eiga nú í átökum við vígamenn IS-samtakanna í norðurhluta Íraks sem hafa ráðist hatrammlega að minnihlutahópum af annarri trú.

Ljóst er að mikið verkefni er fyrir höndum hjá sérsveitarmönnunum en talið er að um 30 þúsund Jasaídar hafist við í Sindjar-fjöllum. Uppi eru hugmyndir um að mynda loftbrú til og frá fjöllunum til að flytja bæði fólk og hjálpargögn. Lendingaraðstæður eru þó ekki upp á marga fiska og því þurfa björgunar- og hersveitir að reiða sig á þyrlur til flutninganna sem hafa takmarkaða flutningsgetu.

Á vef Sky News er haft eftir talsmanni Sameinuðu þjóðanna að fólkið sé uppgefið og þjáist af vökvaskorti, og margir hafi fengið hitaslag eftir að hafa ferðast fótgangandi í 40-45 gráðu hita í þrjá sólarhringa.  

Fregnirnar af sérsveitarmönnunum koma í kjölfar tíðinda af rúmlega 130 bandarískum hernaðarráðgjöfum sem sendir voru til Kúrdahéraðanna í Írak í morgun. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Chuck Hagel, ítrekaði þó að hermennirnir taki ekki þátt í bardögum.

Hópur sérsveitarmannanna sem nú hefur verið sendur bætist þannig í hóp 380 annarra sem þegar hafa verið að störfum í landinu síðustu vikurnar.


Tengdar fréttir

Frakkar senda Kúrdum vopn

Frakklandsforseti tilkynnti um ákvörðunina í hádeginu og hafa stjórnvöld í Írak þegar veitt samþykki sitt.

Hundruðir þúsunda á flótta

Sameinuðu þjóðirnar segja tugþúsundir manna, kvenna og barna enn hafast við, við þröngan kost á Sinjar fjalli og þurfa lífsnauðsylega á aðstoð að halda.

Obama ánægður með nýjan forsætisráðherra Íraka

Obama Bandaríkjaforseti segir að skipun Haider al-Abadi í embætti forsætisráðherra í Írak sé skref fram á við sem lofi góðu. Uppgangur herskáu samtakanna sem kalla sig Íslamska ríkið og ráða nú lögum og lofum á stórum landssvæðum í Írak og í Sýrlandi hafa aukið mjög á óvissuna um framtíð Íraks.

Bandarískir ráðgjafar komnir til Íraks

Rúmlega 130 bandarískir hernaðarráðgjafar eru nú komnir til Kúrdahéraðanna í Írak. Þetta segir Chuck Hagel varnarmálaráðherra landsins. Hann ítrekar þó að hermennirnir taki ekki þátt í bardögum heldur séu þeir að meta ástandið og þörfina á neyðaraðstoð en samtökin sem kalla sig Íslamska ríkið ráða yfir stórum hlutum svæðisins og eru talin hafa ráðist hatrammlega að minnihlutahópum af annarri trú.

35 þúsund flóttamenn hafa komist frá Sinjar-fjalli

Um 35 þúsund flóttamenn hafa nú komist af Sinjar-fjalli þar sem þúsundum flóttamanna hefur verið haldið í herkví af samtökunum IS, Íslamskt ríki. Flóttamennirnir, sem flestir eru Jasídar, hafa farið fótgangandi til Kúrdistan í norðurhluta Íraks í gegnum Sýrland, en ferðin tekur um þrjá daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×