Engin sérfræðikunnátta eða þjálfaðir menn eru tiltækir til að greiða veiðarfæraflækjur af hvölum, líkt og víða annars staðar. Þó tókst að bjarga hval úr netaflækju hér við land fyrir nokkrum árum.
Sá hvalur var reyndar fastur í flækjunni þannig að menn komust að honum og gátu skorið netin utan af honum þannig að hann slapp heill á húfi. Öðru máli gegnir með hnúfubakinn, sem sést hefur undanfarið í Ísafjarðardjúpi með með bauju og belg af línuveiðarfærum flækt við sporðinn. Hann syndir um og er því allt annað dæmi, að mati Gísla Víkingssonar hvalasérfræðings á Hafrannsóknastofnun.
„Það er ekki gott að segja það er eftir því hvar hann er fastur í þessu. Ef hann getur synt mikið niður þá er erfitt að ná honum.“
Gísli segir þetta ekki algengt en þó töluvert algengt með hnísur og höfrunga. „En með stórhveli er þetta ekki algengt, eitt til tvö dæmi á ári.“
En sums staðar eru sérþjálfaðir menn sem takast á við slík verkefni, eigum við einhverja slíka?
„Nei, það hefur ekki verið þjálfað upp lið hér. Víða, til dæmis í Ameríku er þetta algengt og þar hafa menn þjálfað upp sérsveitir hálfgerðar, til að losa svona flækjur,“ sagði Gísli Víkingsson hvalasérfræðingur.
Innlent