Erlent

Bretar senda orrustuþotur til Íraks

Randver Kári Randversson skrifar
Vísir/AFP
Tilkynnt var eftir fund í COBR-nefndinni í dag að ákveðið hefði verið að senda nokkrar breskar orrustuþotur af gerðinni Tornado til Íraks til að aðstoða í átökunum við IS-samtökin í landinu. Vélarnar verða notaðar í eftirlitsskyni en þær hafa þó getu til loftárása. Einnig var ákveðið að skoða möguleika Breta á því að aðstoða Kúrda í baráttunni við öfgasamtökin IS, Íslamskt ríki.

Breska stjórnin hefur hingað til útilokað þann möguleika að blanda sér með beinum hætti í átökin í Írak. Á vef Independent er greint frá því að ákveðið hafi verið að skoða með hvaða hætti Bretar geti komið hergögnum til hersveita Kúrda sem nú berjast við sveitir IS í norðurhluta Íraks.

Þá kemur einnig fram að breska ríkisstjórnin sé reiðubúin að senda breskt herlið til landsins í mannúðarskyni til að tryggja örugga ferð þúsunda flóttamanna, sem lagt hafa á flótta undan hersveitum IS. Slíkt gæti verið gert á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×