Menning

Frábært lokakvöld á vel heppnaðri Act Alone

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Arnar Jónsson
Arnar Jónsson Vísir/Ágúst G. Atlason
Einleikjahátiðinni Act Alone lauk í hádeginu með einsöngstónleikum Bjarna Ara í félagsheimilinu á Suðureyri.

Hápunktur hátíðarinnar var Sveinsstykki Þorvalds Þorsteinssonar heitins, með Arnari Jónssyni í aðalhlutverki, en verkinu leikstýrði eiginkona Arnars Þórhildur Þorleifsdóttir. 

Verkið stendur fjölskyldu Arnars og Þórhildar nærri, en Þorleifur Örn, sonur þeirra hjóna, pantaði verkið af Þorvaldi fyrir sextugsafmæli föður síns. 

Þremur vikum eftir að verkið var pantað hringdi Þorvaldur í Þorleif og sagðist ekkert almennilegt geta gert fyrir stórleikarann, og hann væri með ritstíflu. Þorleifur útskýrði þá fyrir Þorvaldi að verkið þyrfti ekki að vera neitt stórvirki.

Nokkru síðar fæddist Sveinn, aðalpersóna Sveinsstykkis. Verkið er sannarlega vel samið, þótt látlaust sé og eldist mjög vel.

Arnar átti sannkallaðan stórleik í félagsheimilinu á Suðureyri.

Benedikt Karl GröndalVísir/Ágúst G. Atlason
Þá var einleikurinn Múrsteinn sýndur í Þurrkverinu í gærkvöldi. Í aðalhlutverki var Benedikt Karl Gröndal, sem lék á móti múrsteini og fórst það hreint ágætlega úr hendi. Leikstjóri verksins er Árni Kristjánsson, sem er á leið til Bretlands í frekar nám. Það verður spennandi að fylgjast með Árna á komandi árum.

Villi Naglbítur sá um að skemmta börnum og foreldrum og komst nokkuð vel frá því.

Verkefnaval hátíðarinnar var æði fjölbreytt og Elfari Loga Hannessyni, skipuleggjanda hátíðarinnar, tókst vel til, jafnvel betur en undanfarin ár.

Samblandan á Act Alone af myndlist, gjörningalist, bókmenntum og einleikjum hélt gestum hátíðarinnar uppteknum og ánægðum allan tímann.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.