Erlent

Auka viðbúnað vegna ebólu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Bandaríkin og Bretland munu á komandi vikum setja upp heilsugæslur og senda nauðsynjavörur og -búnað til þeirra ríkja sem verst hafa orðið úti í baráttunni við ebólufaraldurinn. Ákvörðunin var tekin í kjölfar yfirlýsingar frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni um að búist sé við þúsundum nýrra ebólutilfella í Vestur-Afríku, verði viðbúnaður ekki aukinn.

Bandaríkjaher mun setja upp heilsugæslu í Líberíu, ætlaða starfsfólki sem sýkst hefur af veirunni, en á þessu ári hafa 79 heilbrigðisstarfsmenn smitast af ebólu. Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði í yfirlýsingu sinni að herinn myndi hjálpa til við að setja upp einangrunarmiðstöðvar og veita heilbrigðisstarfsfólki öryggi í baráttunni við sjúkdóminn.

Þá munu Bretar setja upp heilsugæslu í Sierra Leone á næstu vikum, þar sem hægt verður að taka á móti 62 einstaklingum. Litla læknisaðstoð er að fá og erfiðlega gengur að fá heilbrigðisstarfsmenn til aðstoðar. Bretar hyggjast senda starfsmenn á svæðið, meðal annars starfsmenn á vegum samtakanna Save the Children.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin býst við þúsundum nýrra ebólu tilfella á komandi vikum og í yfirlýsingu þeirra segir að þær aðferðir sem notaðar hafa verið til þess að reyna að halda faraldrinum í skefjum hafi ekki borið árangur og því þurfi að auka viðbúnað umtalsvert. Faraldurinn sé stjórnlaus og grípa þurfi í taumana.

Yfir tvö þúsund hafa orðið faraldrinum að bráð og eru yfir þrjú þúsund og fimm hundruð sýktir, ríflega helmingur þeirra í Líberíu.


Tengdar fréttir

Ebólufaraldurinn á eftir að versna enn frekar

Sóttvarnalæknir Bandaríska landlæknisembættisins segir ljóst að ebólufaraldurinn sem nú geisi í vestur Afríku eigi eftir að versna áður en mönnum tekst að draga úr honum.

Fjöldi ebólusmitaðra gæti margfaldast

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur gefið út að ríflega tuttugu þúsund manns til viðbótar eigi á hættu að smitast af ebólu.

Baráttan gegn ebólu að tapast

Samtökin Læknar án landamæra segja að heimsbyggðin sé að tapa í baráttunni gegn ebóluveirunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×