Innlent

Sagðist ekki hafa séð ráðningarsamning Reynis

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hallgrímur ásamt Jóni Trausta Reynissyni, framkvæmdastjóra DV.
Hallgrímur ásamt Jóni Trausta Reynissyni, framkvæmdastjóra DV. Vísir/GVA
„Það ríkir mikil samstaða um að ekki sé hægt að starfa áfram á meðan þetta liggur í loftinu,“ segir blaðamaður DV í samtali við Vísi. Hallgrímur Thorsteinsson, nýr ritstjóri DV, og Þorsteinn Guðnason, stjórnarformaður DV, svöruðu spurningum starfsmanna á fundi í morgun.

Starfsmenn eru afar óhressir við þær tilkynningar sem stjórn DV hefur sent út undanfarið og í kjölfar hallarbyltingarinnar sem gerð var á aðalfundi á föstudaginn.

Í tilkynningu frá stjórn DV í gær kom fram að til stæði að láta fram fara tvíþætta úttekt á félaginu. Farið yrði yfir rekstur og fjármál félagsins annars vegar og skoðun á faglegum þáttum í ljósi ábendinga sem hafa komið fram hins vegar. Óháðir aðilar myndu verða fengnir til að vinna úttektirnar.

Þorsteinn tók við stjórnarformennsku á föstudag auk þess sem kjörin var ný stjórn. Hallgrímur var svo ráðinn ritstjóri í gær. Reynir Traustason ritstjóri var svo leystur frá starfskyldum sínum í gær sem starfsmenn DV eru margir hverjir mjög ósáttir við.

„Það er mikil reiði vegna þess hvernig komið er fram við fyrrverandi ritstjóra.“

Hallgrímur Thorsteinsson, nýr ritstjóri DV og DV.is, heilsar starfsmönnum fyrir fundinn í morgun.Vísir/GVA
Samkvæmt heimildum Vísis gengu starfsmenn DV á þá Hallgrím og Þorstein af töluverðum ákafa og kröfðu þá um svör. Skilja þeir ekki hvers vegna Reynir hafi verið leystur frá starfskyldum sínum en ekki einfaldlega rekinn.

Heimildarmaður Vísis segir að lengi vel hafi verið fátt um svör varðandi þá ákvörðun stjórnar. Með tímanum hafi svörin orðið á þá leið að Reynir hafi verið leystur undan starfskyldum en ekki sagt upp þar sem stjórnarmenn hefðu ekki haft ráðrúm til að kynna sér ráðningarsamning Reynis.

Fundurinn hófst klukkan níu og stóð til hádegis. Voru þeir Hallgrímur og Þorsteinn til svara til klukkan ellefu en þá yfirgaf Þorsteinn fundinn. Skilningur þess blaðamanns DV sem Vísir ræddi við var sá að fundinum yrði framhaldið eftir hádegi.

„Okkur finnst vegið að trúverðugleika allra sem starfa hér,“ segir blaðamaður DV.

Tveir blaðamenn DV sögðu upp störfum á miðlinum fyrir helgi. Ekki liggur fyrir hvort fleiri hafi farið að þeirra fordæmi.

Hvorki hefur náðst í Hallgrím Thorsteinsson né Þorstein Guðnason þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×