Innlent

Stærra en Etna og einstakt myndefni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fréttakona frá Ítalíu, sem sérstaklega kom til Íslands til að fjalla um eldsumbrotin, segir myndefnið einstakt, - og þetta sé stærra gos en hún hafi séð í Etnu.

Ítölsku fréttamennirnir Oriana Boselli og Stefano De Nicolo voru, ásamt  fréttamönnum Stöðvar 2 og RÚV, í fyrsta fjölmiðlahópnum sem kom að sprungunni fyrst eftir litla gosið aðfararnótt föstudags. Tíu klukkustundum síðar breyttist þessi sami staður í logandi hraungjá, - Ítalirnir hafa líka flogið yfir og senda stöðugt nýjar fréttir til baka til eins stærsta dagblaðs Ítalíu, Corriere Della Sera, og sjónvarpsnetmiðilsins Youreporter.it.



Oriana Boselli, sem kom til Íslands fyrir tíu dögum, segir Ítali afar áhugasama um náttúruhamfarir eins og jarðskjálfta og eldgos.

„Á Ítalíu eru líka fjölmörg eldfjöll,” segir hún í samtali við Stöð 2. 



Við höfum einnig frétt af breskum, þýskum, svissneskum og hollenskum fréttamönnum á svæðinu en af útlendingunum eru sennilega þeir ítölsku sem mesta reynslu hafa af eldgosum. Og þau eru hæstánægð með myndefnið.

„Við höfum náð miklu af ótrúlegu myndefni. Þetta er alveg einstakt myndefni,” segir Oriana Boselli.



Ítalir fá oft eldgos, eyjan Stromboli gaus í sumar, og Etna gýs reglulega, en Oriana fylgdist einmitt með gosi í Etnu í fyrra.

-En hvernig er þetta gos í samanburði við Etnu?

„Þetta var það stærsta,“ svaraði Oriana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×