Innlent

Spáir margra ára hræringum

„Þetta á eftir að vara í einhver ár, þessi umbrot, ekki þetta ákveðna eldgos hér. Því lýkur og svo kemur annað og þetta á klárlega eftir að fara inn í jökul,“ saagði Ármann Höskuldsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

„Þó við stöndum hér og horfum á þetta glæsilega sjónarspil, þá höfum við ekki langan tíma ef hann hleypur þessa síðustu þrjá kílómetra í jökulinn.“

Spurður um stöðu eldgossins síðasta sólarhringinn segir Ármann að það hafi dalað aðeins. Hann sagði hraun hafa hlaupið til úr einum gíg og að líklega væri stíflun í rásinni.

Áætlað er að langlengsta hrauntungan úr gosinu sé komin sjö kílómetra frá gossprungunni, til aust-norð-austurs, og skríður hraunið í átt að meginupptakakvíslum Jökulsár á Fjöllum.

Gossprungan er á mikilli sléttu milli Vatnajökuls og Öskju, eldurinn er í forgrunni en í bakgrunni eru Kverkfjöllin, með sína tignarlegu kverk, sem og Dyngjujökull, einn af stærri skriðjöklum Vatnajökuls.

Hraunið rennur út á svokallaðar Flæður, þar sem álar undan Dyngjujökli kvíslast um, og er það þegar farið að stífla þessi fyrst drög Jökulsár á Fjöllum. Þar þarf að fara sérstaklega varlega um því margar gufusprengingar hafa orðið við þessar aðstæður þar sem vatnið leitar undir þúsund stiga heitt hraunið.

Við eldsumbrotin stóðu fjölmiðlamenn og vísindamenn nánast dolfallnir að verða vitni að þessu sjónarspili, að sjá gígana þeyta kvikunni hátt til himins af feiknarlegu afli, að hlusta á drunurnar, og sjá eldárnar flæða ákaft frá eldtjörninni, eins og stórfljót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×