Félag bókagerðarmanna mótmælir harðlega hækkun virðisaukaskatts á bækur úr 7% í 12%. Sömuleiðis mótmælir stjórn félagsins auknum álögum á þorra launafólks sem hún segir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fela í sér. Þetta kemur fram í ályktunum sem FBM sendir fjölmiðlum í dag.
„Bókaútgáfa er undirstaða þess að íslensk tunga þróist og dafni og því þarf að standa vörð um útgáfu og dreifingu bóka á íslensku. Hækkun útsöluverðs bóka eykur námskostnað framhaldsskólanema og slælegar niðurstöður grunnskólabarna í alþjóðlegum lestrarkönnunum hræða. Hækkun útsöluverðs bóka verður auk þess trauðla til þess að fjölga þeim sem lesa sér til gagns eða auka málkennd,“ segir í ályktun félagsins vegna hækkun virðisaukaskatts á bækur. Segja þeir hækkunina veikja markaðsstöðu bókarinnar og draga væntanlega úr sölu hennar. Í kjölfarið kunni bókatitlum sem gefnir verða út á Íslandi að fækka.
„Það væri afleit þróun fyrir íslenska tungu og menningu að ógleymdri lífsafkomu allra þeirra fjölmörgu sem koma að skrifum, framleiðslu, dreifingu og sölu bóka á Íslandi. Nær væri að stjórnmálamenn sýndu íslenskri menningu og tungu stuðning í verki og afnæmu virðisaukaskatt á bókum á öllum vinnslustigum og styrku þannig greinina alla. Þá stæðum við keik á tyllidögum og værum raunveruleg bókaþjóð.
Stjórn Félags bókagerðarmanna, 16. september 2014.“
Þá mótmælir stjórn FBM auknum álögum á þorra launafólks sem fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar feli í sér.
„Hækkun á lægra þrepi virðisaukaskatts úr 7% í 12% kemur verst niður á tekjulægri heimilum. Breytingarnar á virðisaukaskattskerfinu, sem ríkisstjórnin leggur nú til, leggst með næstum tvöfalt meiri þunga á lægsta tekjuhópinn en þann hæsta þegar útgjöld vegna matvæla eru skoðuð. Kerfisbreytingin eykur á hættu að verðlag hækki meira en efni standa til.“
Segir stjórnin að fólk í atvinnuleit mæti skilningsleysi.
„Stjórn FBM mótmælir harðlega skerðingu á bótarétti vegna atvinnuleysisbóta, sérstaklega gagnvart þeim einstaklingum sem hafa verið hvað lengst án atvinnu. Skerðing á bótarétti úr þremur árum í 2 og hálft ár er veruleg og veldur því að fjöldi fólks þarf að leita til sveitarfélaga um framfærslu sem eru þung skref. Atvinnuleysi minnkar ekki við það að velta vandanum yfir á sveitarfélögin og mikilvægara er að halda úti virkum vinnumarkaðsúrræðum.“
Þá skorar stjórn FBM á stjórnvöld að halda í heiðri það samkomulag um að koma með fjármagn inn í Virk starfsendurhæfingarsjóð eins og kveðið er á um í lögum frá árinu 2012 en ekki er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

